Úttekt er lokið á innkaupum og samningsstjórnun hjá A hluta Reykjavíkurborgar

Úttekt er lokið á innkaupum og samningsstjórnun hjá A hluta Reykjavíkurborgar

24. júní 2022

Innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar (IER) hefur lokið úttekt á innkaupum og samningsstjórnun hjá Reykjavíkurborg.

Innkaup eru mikilvæg í rekstri hins opinbera og gegna stóru hlutverki í mótun rekstrarumhverfis fyrirtækja á almennum markaði. Árlega ver Reykjavíkurborg rúmlega 40 ma.kr. til kaupa á vörum, þjónustu og verklegum framkvæmdum. IER metur fjárhagslega áhættu og misferlis- og orðsporsáhættu innkaupa og samningagerðar í hlutfalli við það umfang.

Markmið úttektarinnar var að kanna fylgni við lög um opinber innkaup nr. 120/2016, samþykktir innkaupa- og framkvæmdaráðs, innkaupastefnu og reglur Reykjavíkurborgar sem taka til undirbúnings innkaupa á vörum, þjónustu og verklegum framkvæmdum og samningsstjórnun.

Í úttektinni voru settar fram ábendingar er varða ábyrgð og eftirlitsskyldur aðila í innkaupaferlinu en samræma þarf regluverk varðandi innkaupamál hjá Reykjavíkurborg meðal annars hvað varðar skýrslugjöf.  Jafnframt þarf að bæta virkni upplýsingakerfa til að viðhafa virkt eftirlit með innkaupum.  Þá er lagt til að gerðar verði reglur um samningsstjórnun frá því að samningur er kominn á til loka samnings og að innkaupa- og framkvæmdaráð setji stjórnendum reglur um skilamöt svo hægt sé að fylgjast með niðurstöðu verkefna.

Stjórnendur hafa rýnt niðurstöður úttektarinnar og er viðbragða þeirra getið í skýrslunni.

Nánar má lesa um niðurstöður í skýrslu Innri endurskoðunar og ráðgjafar.