Ný samþykkt fyrir Innri endurskoðun og ráðgjöf

15. júní 2021

Borgarstjórn hefur tekið ákvörðun um nýja samþykkt fyrir Innri endurskoðun og ráðgjöf

Borgarstjórn samþykkti í dag nýja samþykkt fyrir Innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar. Þar eru gerðar ýmsar breytingar á verkefnum og skipulagi skrifstofunnar undir stjórn og á ábyrgð innri endurskoðanda.

Helstu breytingarnar snúa að veigamikilli breytingu á fagsviði ráðgjafar. Áður höfðu bæði verkefni umboðsmanns borgarbúa og verkefni tengd persónuvernd fallið undir það svið en nú hafa þessi verkefni verið aðgreind.

Einnig hefur samþykktin að geyma ýmis nýmæli, þar á meðal um inntak ráðgjafar við borgarbúa, um vöktun á eðli og fjölda kvartana frá borgarbúum til einstakra fag- og kjarnasviða, um persónuverndarteymi og um verkefni tengd móttöku uppljóstrana frá starfsmönnum. Lögð er rík áhersla á að misferli verði ekki liðið innan borgarinnar og að öll mál verði skoðuð og brugðist við á viðeigandi hátt. Með samþykktinni hefur Reykjavíkurborg tekið skýr skref til að innleiða með traustum hætti ákvæði nýrra laga um vernd uppljóstrara er tóku gildi 1. janúar 2021.