Vefgátt fyrir uppljóstranir opnuð

Vefgátt fyrir uppljóstranir opnuð

1. júlí 2021

Innri endurskoðun og ráðgjöf opnar sérstaka vefgátt fyrir uppljóstranir og nafnlausar ábendingar

Það er eitt af verkefnum Innri endurskoðunar og ráðgjafar að taka á móti uppljóstrunum um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi frá starfsmönnum borgarinnar. Í því skyni rekur hún sérstaka vefgátt, bæði fyrir uppljóstrara og þá sem senda vilja nafnlausar ábendingar með öruggum hætti. Þar er hægt að opna sérstök pósthólf fyrir traust samskipti.

Um er að ræða verkefni sem unnið er í þágu almannahagsmuna og í samræmi við lög um vernd uppljóstrara. Samkvæmt lögunum er starfsmönnum skylt að senda uppljóstranir undir nafni en Innri endurskoðun og ráðgjöf skal gæta leyndar um hverjir þeir eru nema þeir samþykki annað afdráttarlaust.

Aðrir en starfsmenn geta sent nafnlausar ábendingar og eru mál tekin til skoðunar ef tiltekin skilyrði eru uppfyllt. Meðal annars verða slíkar ábendingar að vera studdar nauðsynlegum gögnum.

Um meðferð uppljóstrunarmála hjá Innri endurskoðun og ráðgjöf fer samkvæmt lögum. Þá er farið eftir ákvæðum samþykktar borgarstjórnar dags. 15. júní sl. og sérstökum verklagsreglum sem borgarráð samþykkti hinn 1. júlí sl.