Innri endurskoðun verður Innri endurskoðun og ráðgjöf

Innri endurskoðun verður Innri endurskoðun og ráðgjöf

21. maí 2021

Borgarráð hefur samþykkt breytingu á nafni Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar. Ber starfseiningin nú heitið Innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar eftir að þrjár eftirlitseiningar voru sameinaðar undir stjórn innri endurskoðanda.

Borgarráð samþykkti í júní á síðasta ári að þrjár eftirlitseiningar yrðu sameinaðar undir stjórn og á ábyrgð innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar. Gert var ráð fyrir að starfsemin fengi nýtt heiti að sameiningu lokinni.

Þær einingar sem voru sameinaðar voru persónuvernd borgarinnar, umboðsmaður borgarbúa og innri endurskoðun. Starfsfólk hinna sameinuðu eininga hefur nú starfað saman í nokkra mánuði undir stjórn innri endurskoðanda. Rætt var við starfsfólk umræddra eininga og ytri aðila og kallað eftir nafnatillögum. Allmargar tillögur komu fram en sú sem varð hlutskörpust var Innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar. Tillagan hafði áður verið kynnt fyrir endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar sem bókaði við það tilefni að heitið hafi þann kost að vera lýsandi fyrir hlutverk eftirlitseiningarinnar.

Samkvæmt samþykkt borgarráðs er heiti starfseiningarinnar nú Innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar.

Hlutverk Innri endurskoðunar og ráðgjafar Reykjavíkurborgar er að fara með fjármála- og stjórnsýslueftirlit hjá Reykjavíkurborg í umboði borgarráðs. Í því felst að með störfum sínum leggur Innri endurskoðun og ráðgjöf mat á og bætir virkni áhættustýringar, eftirlitsaðferða og stjórnarhátta hjá stofnunum og félögum í meirihlutaeigu Reykjavíkurborgar.

Innri endurskoðun og ráðgjöf fer einnig með verkefni umboðsmanns borgarbúa en í því felst að veita borgarbúum ráðgjöf, greiða götu þeirra, sætta sjónarmið og leiðbeina þeim í samskiptum sínum við borgina, m.a. um leiðir þeirra til að leita réttar síns telji þeir að á sér hafi verið brotið.

Persónuverndarfulltrúi Reykjavíkurborgar tilheyrir þessari nýju stjórnsýslueiningu en hlutverk hans er að veita stjórnendum Reykjavíkurborgar ráðgjöf um persónuvernd, upplýsa þá, fylgjast með og sjá um önnur þau verkefni sem greinir í reglugerð ESB 2016/679 frá 27. apríl 2016, og lögum nr. 90/2018. Þá þarf persónuverndarfulltrúi að koma, með viðeigandi hætti og tímanlega, að öllum málum borgarinnar sem varða ákvarðanatöku um vinnslu persónuupplýsinga.

Hjá Innri endurskoðun og ráðgjöf er jafnframt tekið á móti upplýsingum frá starfsmönnum, viðsemjendum Reykjavíkurborgar og öðrum um réttarbrot, vanrækslu eða mistök eða óeðlileg afskipti kjörinna fulltrúa af málum í stjórnsýslu og/eða þjónustu Reykjavíkurborgar.

Innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar er Hallur Símonarson.